Nánar um Krílasálma

Krílasálmar, er samheiti yfir kirkjuleg tónlistarnámskeið fyrir ungbörn og foreldra þeirra. Námskeiðin eiga rætur sínar að rekja til Danmerkur en orðið er þýðing á danska orðinu Babysalmesang. Fyrsta námskeiðið á Íslandi var haldið í Fella- og Hólakirkju vorið 2008 og hafa haldið áfram síðan. Fleiri kirkjur hafa svo bæst í hópinn og er hægt að sækja námskeið í ýmsum kirkjum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri.

Umsjónarmaður námskeiðanna í Hjallakirkju er Guðný Einarsdóttir organisti. Hún stundaði nám í Kaupmannahöfn og kynnti sér þar aðferðir við tónlistarkennslu ungra barna.

Á námskeiðunum eru kennd ýmis lög og leikir í notalegu umhverfi kirkjunnar og lögð áhersla á söng og hreyfingu. Einkum er notast við tónlist kirkjunnar en einnig önnur þekkt barnalög, leiki og þulur.

Rannsóknir hafa sýnt að það að syngja fyrir lítil börn auki einbeitingarhæfileika þeirra og hreyfiþroska. Raddir foreldranna eru þær fyrstu sem ungbörn læra að þekkja og það veitir þeim öryggi og ánægju að heyra þær. Sönghæfileikar skipta því engu máli í þessu samhengi en málið snýst fyrst og fremst um að rækta tengsl foreldris og barns!

Til baka

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: